Vestfirðir

Stórbrotin náttúra á Vestfjörðum. Mynd: Vera & Jean-Christophe

Jarðfræðilega eru Vestfirðir einn elsti hluti Íslands, en elsta bergið er talið vera um 16 milljón ára gamalt. Þrátt fyrir að Vestfirðir séu ekki skilgreindir sem heitt svæði er víða að finna jarðhita á svæðinu. Við Ísafjarðardjúp er jarðhiti einna mestur á Reykjanesi. Á Vestfjörðum er Drangajökull, sem er fimmti stærsti jökull landsins. Þá er að finna á Vestfjörðum einn af fegurstu og tilkomumestu fossum landsins, Dynjanda í Arnarfirði. Einhver mestu strand- og fuglabjörg Íslands eru á Vestfjörðum. Hornbjarg snýr hamraveggum sínum á móti Íshafinu, en Látrabarg, sem er á vestasta odda Evrópu, er eitt þéttsetnasta fuglabjarg í heimi. Í Ísafjarðardjúpi liggja náttúruperlurnar Æðey og Vigur.

Á norðanverðum Vestfjörðum er fjölmargt að sjá og upplifa hvort heldur fólk vill stunda náttúruskoðun eða einfaldlega njóta þægilegra afþreyinga. Í því sambandi má  m.a. nefna:

Skrúð í Dýrafirði, Hið alþjóðlega brúðusafn á Flateyri, Sundlaugarnar í Bolungarvík, á Flateyri og Suðureyri, Ósvör og Náttúrugripasafnið í Bolungarvík, Byggðasafn Vestfjarða í Turnhúsinu í Neðstakaupstað, Melrakkasetrið og Raggagarð í Súðavík.

Þá má benda á að eina af fegurstu fjörum landsins er að finna við kirkjustaðinn Holt í Önundarfirði. Frá Bolungarvík er stutt yfir í Skálavík eða upp á Bolafjall, sem skartar á fögrum degi útsýni inn eftir Ísafjarðardjúpi og yfir á Hornstrandir. Bátsferð frá Ísafirði í Vigur tekur um 30 mínútur, en í eyjunni er margt að sjá og upplifa auk þess sem þar er greiðasala.