Súðavík

Súðavík er lítið og friðsælt sjávarþorp í Álftafirði við utanvert Ísafjarðardjúp. Þar búa nú um 200 manns í nýrri hluta þorpsins við rætur fjallsins Kofra. Í eldri hlutanum er nú aðeins sumarhúsabyggð, en ekki er leyfilegt að gista þar frá 1. nóvember til 30. apríl ár hvert vegna snjóflóðahættu. Í Súðavík er fjölbreytt þjónusta í boði auk afþreyingarmöguleika fyrir alla aldurshópa svo sem í Fjölskyldugarði Vestfjarða – Raggagarði. Þá er heimsókn í Melrakkasetrið í Eyradal skylduheimsókn fyrir alla þá sem stoppa í Súðavík um lengri eða skemmri tíma.

Í Álftafirði er einstök náttúrufegurð eins og víða á Vestfjörðum og margt í boði þegar kemur að útivist og/eða náttúruskoðun. Frá Melrakkasetrinu í Eyrardal er hægt að ganga meðfram Eyrardalsánni upp í Sauradal. Þá hafa verið stikaðar gönguleiðir bæði á Sauratinda og fjallið Kofra.  Inn af botni Álftafjarðar er að finna fjölbreytt gróðurfar og dýralíf og þar er m.a. hið sérstæða Valagil.

Frá Súðavík er stutt til margra áhugaverðra staða á Vestfjörðum. Ísafjörður, höfuðstaður Vestfjarða er aðeins í 20 km fjarlægð. En frá Ísafirði eru á sumrin m.a. reglulegar ferðir yfir á Hornstrandir og í eyjuna Vigur, perluna í Ísafjarðardjúpi. Þá er kaupstaðurinn Bolunagarvík og  kauptúnin, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri í innan við klukkustundarkeyrslu frá Súðavík. Ferðalag um Vestfirði er upplifun fyrir þá sem kynnast vilja stórbrotinni náttúru og fjölbreyttu og áhugaverðu mannlífi.