Ísafjörður

Frá Súðavík er aðeins um 15 mínútna akstur til höfuðstaðar Vestfjarða, Ísafjarðar. Ísafjörður státar af langri sögu sem slíkur og margt þar að sjá sem minnir á liðna tíð. Í því sambandi má nefna húsin í Neðstakaupstað, en elsta húsið sem þar stendur, Krambúðin var byggð 1757. Þá eru á eyrinni fjölmörg íbúðarhús sem reist voru laust fyrir eða um aldamótin 1900. Á Ísafirði er mjög góð alhliða þjónusta við ferðamenn. Vesturferðir skipuleggja fjölbreyttar ferðir um alla Vestfirði, með sérstaka áherslu á Hornstrandir og Vigur. Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar eru með reglubundnar siglingar yfir á Hornstrandir. Þá er Ísafjarðarflugvöllur aðal samgönguæð Vestfjarða en Flugfélag Íslands flýgur á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar tvær ferðir á dag allt árið um kring.